Rįšstefna Fransk – ķslenska višskiptarįšsins um samstarf į sviši jaršvarma

Ráðstefna Fransk – íslenska viðskiptaráðsins um samstarf á sviði jarðvarma

Tæplega tvöhundruð manns sóttu mjög vel heppnaða ráðstefnu á vegum Fransk – íslenska viðskiptaráðsins sem haldin var í í París 16. apríl undir yfirskriftinni „Samskipti Frakklands og Íslands á sviði jarðvarma“. Meðal þeirra sem ávörpuðu ráðstefnuna voru Fréderic Vernhes, varaforseti  viðskiptaráðs Parisar Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar – og viðskiptaráðherra og Mario Pain, aðstoðarforstjóri Orkustofnunar Frakklands.  

Meðal gesta voru fjölmargir forsvarsmenn í orkuiðnaði í báðum löndunum auk áhrifamanna í viðskiptum og þjóðmálum. Þeirra á meðal var Laurent Fabius, utanríkisráðherra Frakklands, en hann hefur verið einn áhrifamesti stjórnmálamaður Frakklands síðustu áratugina, m.a.  forsætisráðherra landsins 1984 -1986.  Fabius fagnaði sérstaklega  þeirri viðleitni Frakka og Íslendinga að vinna enn nánar saman á sviði orkumála og tók með því undir orð Ólafs Ragnars Grímssonar, sem í sínu erindi lagði mikla áherslu á samstarf.

Marc Boudier stýrði umræðum með þátttöku 9 þátttakenda frá báðum þjóðum. Allir þátttakendur í umræðunum voru á einu máli að það væri beggja hagur að auka samskipti landanna enn frekar á þessu sviði.

Þeir Hákon Gunnarsson, klasastjóri Iceland Geothermal og Sylvain Brogle forstjóri GEODEEP sem er heiti á klasasamstarfi í orkugeiranum í Frakklandi, greindu frá því að GEODEEP myndi verða einn af lykilstuðningsaðilum á ráðstefnunni  Icelandic Geothermal Cluster 2016 (IGC 2016) sem haldin verður á Íslandi í apríl það ár.  

GEODEEP var sett á laggirnar fyrir 2 árum og er gríðarlega öflugt. Starfsmannafjöldi þeirra fyrirtækja sem mynda klasann er um 330.000.   Mikill opinber fjárstuðningur er við GEODEEP og greindi Brogle frá því að frá deginum áður hafði verið ákveðið af Segolene Royal, orkumálaráðherra Frakklands, að stofnaður yrði sjóður í nafni GEODEEP sem fengi 50 milljónir evra árlega til að þróa starfsemi sína. Má af því sjá hversu mikla áherslu Frakkar leggja á nýtingu jarðvarma. Reyndar hitti Ólafur Ragnar Grímsson bæði forseta Frakklands og orkumálaráðherra landsins við þetta tækifæri og lýsti þar vilja sínum til að auka samstarf á milli landanna. Ragnheiður Elín Árnadóttir ræddi mikilvægi jarðvarmavinnslu fyrir efnahag Íslands og þá möguleika sem felast í auknu samstarfi milli Íslands og Frakklands á sviði orkuvinnslu.

Að loknum umræðum var gengið inn í hátíðarsal hinnar virðulegu byggingar Viðskiptaráðs Parísar og skrifað undir tvo samninga. Annarsvegar skrifuðu verkfræðifyrirtækin Verkís og Mannvit undir samninga við franska verktaka- og verkfræðifyrirtækið Clemessy – eitt stærsta þekkingarfyrirtæki Frakklands – um gagnkvæma afhendingu skjala vegna fyrirhugaðra orkuverkefna.

Þá skrifuðu Ari Kristinn Jónsson rektor Háskólans í Reykjavík og prófessor Marc Renner, forstöðumaður INSA háskólans í Strasbourg undir samstarfssamning milli Háskólans í Reykjavík og INSA, um samstarf við rannsóknir, kennslu og nemendaskipti á sviði jarðvarma.

Baldvin Björn Haraldsson, formaður Fransk-íslenska viðskiptaráðsins stýrði ráðstefnunni og í lok hennar sæmdi hann Marc Bouteiller, fyrrum sendiherra Frakklands á Íslandi,  heiðursnafnbót Fransk – íslenska viðskiptaráðsins en Bouteiller hefur verið óþreytandi í stuðningi sínum við ráðið og verkefni þess. Aðeins Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, hefur áður verið sæmd heiðursafnbót ráðsins.