2012.26.03 Samþykktir

 

 

LÖG FRANSK-ÍSLENSKA VIÐSKIPTARÁÐSINS

Fransk-íslenska viðskiptaráðið var stofnað 29. ágúst 1990 við það tækifæri er forseti Frakklands, François Mitterand kom til Íslands í opinbera heimsókn.  Ráðið hefur tengsl við utanríkisþjónustur Íslands og Frakklands að því marki sem þær vinna að viðskiptatengslum landanna.

 

1.GREIN
NAFN RÁÐSINS OG AÐSETUR

Nafn ráðsins er „Fransk-íslenska viðskiptaráðið“, á frönsku „Chambre de Commerce et d‘Industrie Franco Islandaise“.  Aðsetur ráðsins eru í Viðskiptaráði Íslands í Reykjavík og [..] í París.

 

2.GREIN
MARKMIÐ

Markmið ráðsins er að stuðla að og efla viðskiptatengsl Íslands og Frakklands með viðeigandi hætti, sem geta treyst og eflt viðskipti milli þjóðanna, með upplýsingaöflun, ráðgjöf til aðila sem vilja stunda viðskipti milli Íslands og Frakklands, ráðstefnum og öðru því sem fallið er til að auka viðskiptatengsl milli landanna.  Ráðið hefur eftir atvikum samstarf við aðra aðila en sérstaklega við Viðskiptaráð Íslands, Viðskiptaráðið í París og Samtök franskra millilandaviðskiptaráða (UCCIFE).

 

3.GREIN
FÉLAGAR

Virkir félagar geta orðið einstaklingar og lögaðilar, fyrirtæki á vegum einkaaðila eða opinberra aðila, félög, hvers kyns aðilar í viðskiptum, lánastofnanir og opinberar stofnanir.  Félagar skulu ávallt samþykktir af stjórn ráðsins.

Félagar greiða árgjöld sem ákveðin eru á aðalfundi ráðsins, samkvæmt tillögu frá stjórn.

Aðeins félagar sem greitt hafa árgjald til ráðsins hafa atkvæðisrétt á aðalfundi og eru kjörgengir til stjórnar.

Sendiherra Frakklands á Íslandi og sendiherra Íslands í Frakklandi eru sjálfkrafa heiðursfélagar að ráðinu.

Stjórn ráðsins getur tilnefnt aðra heiðursfélaga ráðsins.  Heiðursfélagar skulu að jafnaði vera einstaklingar sem lagt hafa mikið af mörkum til ráðsins eða hafa gegnt þýðingarmiklu hlutverki í viðskiptum milli Íslands og Frakklands. Heiðursfélagar skulu samþykktir af aðalfundi.

Félagsaðild fellur niður:

 1. Með úrsagnarbréfi til ráðsins;
 2. Ef félagsgjöld eru ekki greidd;
 3. Þegar kröfur til félagsaðildar eru ekki lengur uppfylltar;
 4. Við brottvikningu sem stjórn samþykkir með þremur fjórðu greiddra atkvæða. Ákvörðun um brottvikningu má skjóta til aðalfundar og tekur hún ekki gildi fyrr en við samþykkt aðalfundar þar að lútandi.

 

4. GREIN
FJÁRMÁL

Ráðið er fjármagnað með árgjöldum félaga. Ráðið getur þegið hvers kyns fjárhagslegan stuðning, hvort sem um er að ræða opinberan eða einkaréttarlegan fjárstuðning, svo og fjárframlög vegna sérstakra verkefna.

 

5.GREIN
STJÓRN

Stjórn ráðsins skulu skipa [12] manns, sem kosnir eru á aðalfundi til tveggja ára í senn. [6] stjórnarmenn skulu hafa aðsetur í Frakklandi og skulu stýra starfsemi ráðsins í Frakklandi. [6] stjórnarmenn skulu hafa aðsetur á Íslandi og skulu stýra starfsemi ráðsins á Íslandi. Aðalfundur skal kjósa einn [varaformann] ráðsins í Frakklandi, af þeim stjórnarmönnum sem þar hafa aðsetur. Aðalfundur skal einnig kjósa einn [varaformann] ráðsins á Íslandi, af þeim stjórnarmönnum sem þar hafa aðsetur. Formaður ráðsins skal kjörinn sérstaklega af aðalfundi.

Lögaðilar geta tilnefnt fulltrúa sína til stjórnarsetu í ráðinu. Fulltrúar lögaðila í stjórn ráðsins skulu vera stjórnarmenn eða aðrir tilnefndir starfsmenn lögaðilans. Aðeins félagar sem greitt hafa árgjald til ráðsins geta tilnefnt fulltrúa sinn til stjórnarsetu í ráðinu. Hætti fulltrúi lögaðila í stjórn ráðsins störfum hjá lögaðilanum, ber lögaðilanum að tilnefna annan einstakling til setu í stjórn félagsins á næsta aðalfundi ráðsins.

Stjórn ráðsins skipuleggur starfsemi þess, í samræmi við lög þessi, markmið ráðsins og ákvarðanir á aðalfundi.

 

6.GREIN
STJÓRNARFUNDIR

Formaður eða annar varaformaður í forföllum formanns, boða til stjórnarfunda og stýra þeim. Stjórnarfundi má halda símleiðis.

Stjórnarfundir ráðsins eru lögmætir þegar formaður eða annar varaformaður ráðsins, og fæst [fimm] aðrir stjórnarmenn eru viðstaddir. Sé stjórnarfundur ekki nægilega fjölmennur getur stjórn engu að síður tekið ákvarðanir ef þær eru síðar staðfestar skriflega af nægilegum fjölda stjórnarmanna sem þarf til ákvarðanatöku samkvæmt grein þessari (með bréfi, tölvupósti eða símbréfi). Ákvarðanir á stjórnarfundum eru teknar af meirihluta greiddra atkvæða þeirra stjórnarmanna sem mættir eru á fundinn.

Stjórn ráðsins er fulltrúi þess í öllum gjörðum þess.  Undirritun formanns eða annars varaformanns, [svo og tveggja annarra stjórnarmanna], skuldbindur ráðið.  Heimilt er að veita skriflegt umboð til skuldbindingar ráðsins.

Stjórn ráðsins gerir árlega skýrslu um starfsemi félagsins, sem leggja skal fyrir aðalfund.

 

7.GREIN
AÐALFUNDIR

Aðalfund ráðsins skal halda árlega eftir ákvörðun stjórnar. Aðalfund skal boða skriflega með minnst tveggja vikna fyrirvara.  Í fundarboði skal taka fram dagskrá aðalfundar.

Aðalfund skal halda á annað hvert ár á Íslandi og annað hvert ár í Frakklandi.  Geti félagi eða fulltrúi félaga ekki mætt á fundinn, getur hann veitt öðrum félaga eða fulltrúa félaga umboð til mætingar og atkvæðagreiðslu á aðalfundi. Á aðalfundi getur félagi eða fulltrúi félaga ekki haft fleiri en tvö umboð frá öðrum félögum.

Ákvarðanir á aðalfundi skulu teknar með meirihluta atkvæða þeirra félaga sem mætt er fyrir á fundinn, þó að teknu tilliti til ákvæða [10.] greinar

Dagskrá aðalfundar skal vera eftirfarandi:

 1. Fundarsetning
 2. Kosning fundarstjóra
 3. Kosning ritara
 4. Umfjöllun um skýrslu stjórnar
 5. Ársreikningar ráðsins lagðir fram til samþykktar
 6. Lagabreytingar
 7. Stjórnarkjör
 8. Kosning eins endurskoðanda
 9. Félagsgjöld

Kosning í stjórn ráðsins skal eiga sér stað á aðalfundi ef nauðsynlegt er vegna brottfalls stjórnarmanna á liðnu ári.  Þá skal einnig kosning fara fram í sæti þeirra stjórnarmanna sem setið hafa í tvö ár.

 

8.GREIN
FJÁRHAGSÁR OG ENDURSKOÐUN

Reikningsár ráðsins er almanaksárið. Uppgerða reikninga skal leggja fyrir kjörinn endurskoðanda ráðsins ásamt fylgiskjölum, minnst tveimur vikum fyrir aðalfund.

 

9.GREIN
LAGABREYTINGAR

Lögum ráðsins má aðeins breyta á aðalfundi, að tillögu stjórnar.  Tíu félagar geta lagt fram tillögur til lagabreytinga eigi síðar en viku fyrir aðalfund. Lagabreytingar skoðast samþykktar hljóti þær samþykki meirihluta þeirra félaga sem mætt er fyrir á aðalfund.

 

10.GREIN
SLIT RÁÐSINS

Aðeins aðalfundur getur ákveðið að slíta ráðinu að fengnu samþykki tveggja þriðju hluta þeirra félaga sem mætt er fyrir á aðalfundi.

Þær eignir sem gætu verið til ráðstöfunar við slit ráðsins skulu renna til stofnana sem hafa það að markmiði að styrkja tengsl Íslands og Frakklands. Aðalfundur ákveður ráðstöfun slíkra eigna.